Hilmar Foss

Hilmar Foss í skrifstofu sinni í Hafnarstræti 11

Löggiltur skjalaþýðandi  og dómtúlkur, f. 1920  í  Brighton


Um ævisögu Hilmars Foss hefur verið skrifað í bókinni "Lífsgleði X" eftir Þóri S. Guðbergsson,  Nýja Bókafélagið, Reykavík 2001 .

Páll Eggerz og Helgi Eggerz tóku Hilmar tali í gömlu skrifstofunni hans að Hafnarstræti 11, 101 Reykavík, 1. jan. 2004:

Það er nýársdagur árið 2004 og ég heiti Hilmar Foss. Móðir mín var Elísabet Kristjánsdóttir Foss, Jónssonar, háyfirdómara og Íslandsráðherra [KristjánJónsson  og  KristjánJónsson2], en hún var systir Sólveigar er síðar giftist Sigurði Eggerz, sem við ætlum að segja frá hér. Við erum í Hafnarstræti 11 í Reykjavík og ég vildi segja frá kynnum mínum af þeim stórmerka manni, Sigurði Eggerz, sem að ég minnist allt frá bernsku. Hann var mjög athyglisverður og sveipaður miklum ljóma, vel af Guði gerður, stórmyndalegur með flaxandi silfurgrátt hár, skáld gott, ritfær vel og mikill ræðusnillingur. Þegar ég man eftir Sigurði fyrst, snemma á 3. áratug síðastliðinnar aldar var hann en búandi í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þar sem hann hafði haft  embættisbústað, en Jón Magnússon, sem var tekinn við sem ráðherra, bjó enn í sínu húsi. Sigurður var þá þingmaður Dalamanna og var það allt til 1931, þjóðkunnur maður alla tíð. Fyrst verður hann landsþekktur þegar hann er sýslumaður í Vík í Mýrdal og þá ekki síst fyrir stórmerkilegt skáldverk, hinn fagra og hrífandi sálm "Alfaðir ræður", sem ortur var í kjölfar óskaplegra sjóslysa þar eystra. Það gustaði mjög að Sigurði þar sem hann fór um. Hann var hraðgengur, dugandi, sífellt á ferli og jafnan starfandi. Hann hættir raunar afskiptum af flokksstjórnmálum eftir 1931, en verður þá sýslumaður á Vestfjörðum og bæjarafógeti á Ísafirði í eitt ár eða svo, en síðan á Eyjarfjarðarsýslu og á Akureyri og þar dvelst hann út sinn embættistíma eða til sjötugsaldurs, en hann er fæddur fyrsta mars 1875 og lætur því af embætti 1945. Því miður var það svo að skömmu eftir að hann flutti til Reykjavíkur og hafði látið af störfum fékk hann slæmt beinkrabbamein í fót og það varð honum að aldurtila eftir að fóturinn hefði varið tekin af honum [dó16. nóvember 1945]. Haldór Hansen, læknir á Landakotsspítala, sem annaðist aðgerðina, vonaðist til að Sigurður gæti lifað þetta af og hélt hann mundi fella sig við það því hann myndi  eftir föður sínum einfættum. En það var því miður ekki svo, þannig að Sigurður náði ekki nema sjötugsaldri, en það þótti hár aldur fyrir miðja síðustu öld. Það hefur mikið breyst síðan og við höfum allt önnur aldursmörk - en þetta voru aldursmörk embættismanna og það var ekki algengt að menn næðu sjötugsaldri.

Það sem maður getur sagt um Sigurð er að ég man eftir honum á Alþingi - hann var þar mjög áberandi, framarlega í flokki og ég man útvarpsfyrirlestra hans og blaðagreinar og bókaskrif. Það var létt fyrir hann að semja og ég átti því láni að fagna sem ungur drengur að fá að lesa með honum prófarkir minnisbókar “Bréf um bankamálin” þegar hann lét af bankastjórn í þeim gamla Íslands banka, sem um var mikið pólitískt þref.

En hann skrifaði líka ýmislegt annað, sérstaklega bók sem hann gaf mér og sem var ákaflega fallega skrifuð - það var samtíningur minningargreina og annars efnis og hét bókin Sýnir. Það er svolitið skemmtilegt að segja frá því og minnast þess að hann skrifaði á entak til mín  “Bússi minn (eins og ég var kallaður sem krakki), lestu alltaf allt, sem kemur út eftir þennan höfund”. Þetta var dálítið dæmigert fyrir Sigurð að taka svona til máls og ég semsagt man þessa áritun 75 árum síðar.

Sigurður var af sjálfsögðu umdeildur eins og stjórnmálamenn alltaf eru. En hins vegar var hann einstaklega vinsæll og átti mjög góða samferð með andstæðingum sínum í stjórnmálum. Hann var rósemdur maður, æsingarlaus, rökfastur og hygginn og vís til að benda mönnum á betri leiðir.

Ferill hans út á landi sem yfirvalds markaði einnig djúp spor. Hann var alstaðar vinsæll og vel látinn og gaman að koma til Akureyrar eftir að hann varð bæjarfógeti þar og sýslumaður Eyjarfjarðarsýslu og að sjá hversu vel hann hafði samlagast lífinu á Norðurlandi og hve vinsæll hann var af öllum almenningi þar. Sama mun hafa verið áður en ég veit til, það er að segja sýslumannsferill hans í Vík í Mýrdal.

Ég er að sjálfsögðu á unglingsárum og þroskaárum á glæsitíma Sigurðar, svo ég er ekki fróður um stjórnmalaferil hans sem slíkan, en um það má víðar lesa í alþingistíðindum og annars staðar [SigurðurEggerz og  SigurðurEggerz2]. Aðalatriðið er að lýsa manninum, hversu svipmikill og fasmikill hann var og hvílík áhrif persónuleiki hans hafði á umhverfi hans. Hann var afhaldinn í fjölskyldu minni og segja má að svo hafi verið hvar sem Sigurður kom. Fjölmargir mektarmenn sögðu mér 1944 þegar lýðveldið var stofnað að þeir hefðu viljað Sigurð Eggerz  fyrsta forseta landsins. Það er ekkert leyndarmál að hann hefði haft mikið fylgi, hins vegar var það Alþingis og pólitisk ákvörðun hversu því máli væri hagað, en ekki þjóðaratkvæði. Sigurður skyldi eftir sig mikil spor og merkileg og það kom berlega í ljós þegar hann lést í nóvember 1945 og við útför hans sem var gerð 24. þess mánaðar hversu mikið var litið til hans og hversu vél látinn hann var af öllum almenningi.  Svo og hversu djúp spor hann hafði markað þann tíma sem hann hafði afskipti af stjórnmálum hér á landi.

En svo vildi ég spyrja sonarson hans, Pál , hvort það væri eitthvað sérstakt sem hann vildi spyrja mig og ég gæti upplýst um þennan stórmerka afa hans.

Páll: Nú, 1. desember 1918 er þáverandi ráðherrann víst á ferðinni og það er Sigurður Eggerz sem heldur ræðuna ekki langt héðan frá þessum stað, sem við sitjum á,

Hilmar: ... fyrir framan Stjórnarráðhúsið við Lækjartorg.

Páll: ... og lýsir yfir fyrir þjóðina að nú erum við sjálfstæð frá Dönunum,

Hilmar: ... og um leið er þjóðfánninn tekinn í notkun, dreginn þar að hún. Páll  hefur minnsta kosti  hitt einn mann og ég tvo sem heyrðu og hrifust mjög af þessari ræðu. Þar var dr. Benjamín Eiríksson sem við hittum á elliheimilinu Grund nú á síðari árum. Hann var fæddur 1910 svo hann hefur verið  8 ára þegar þetta skéði, en annar maður var Guido Bernhöft stórkaupmaður, af vel þekktri ætt  í Reykjavík og hann var fæddur 1901, svo hann er 17 ára gamall þegar þetta gerist og hann sagði mér mjög ítarlega frá þessari ræðu. Því miður bar þann skugga á, að þá geisaði spænska veikin, inflúenzufaraldur sem lagði hér að velli fjölda manna, svo það var færra fólk á ferli en venjulega. En þetta hefur verið einn af hápunktum á æviferli Sigurðar og þar að auki eitt merkasta tímamót í Íslandssögu síðara tíma. [NB: Meðal annars dóu mágur Sigurðar, Jón Kristjánsson, f. 1885, lögfræðiprófessor við HÍ þann 9. nóv 1918, og konan Jóns, Þórdís Todda Benediktsdóttir, f. 1889, nokkrum dögum seinna, þann 12. nóv. - bæði úr spönsku veikinni.]

Páll: Sigurður var mikill stjórnmálamaður - ráðherra, forsætisráðherra, þingmaður, bankastjóri, fjármálaráðherra... en allt í einu, 1931 er allt saman búið. Hann verður sýslumaður og bæjarfógeti langt í burtu  fyrir vestan og norðan  þangað  til hann lætur af störfum 1945. Hvað gerðist?

Hilmar: Það er ekki annað en gerist við sviptingar í stjórnmálum, hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Dalasýslu.  Svo kom Framsóknarflokkurinn fram með ungan mann, Bjarna Bjarnason  skólastjóra á Laugarvatni og hinir pólítískir straumar hafa legið þannig að Bjarni hafði  yfir  í kosningum. Þegar menn missa þingsæti þá er mjög erfitt að koma til baka og þingferli þeirra oft lokið og þannig var það með Sigurð. Greinilegt að hann hefur hugsað þannig að hann myndi gera þjóðinni betra gagn sem embættismaður heldur en að halda áfram sem stjórnmálamaður í stjórnarandstöðu án sætis á þingi. Enda markaði hann djúp spor á Akureyri - hann tók þar við af Steingrími Jónsyni bróður tengdaföður hans og ég held hann hafi verið mjög ánægður með þau störf, sem hann gengdi þarna. Þetta var besta embætti í landinu þá utan Reykjavíkur, langt um besta -  og ég geri ráð fyrir að hann hafi talið að  nóg væri komið af afskiptum af stjórnmálum  og að hann færi heldur þessa leið.  Hins vegar var hann alltaf  áhrifamaður,  flutti ræður , skrifaði greinar og eftir öllu  sem hann sagði og því sem hann skrifaði var vel tekið.

Nú verðum við sérstaklega að beina hugum okkar að sjálfstæðismálinu og samskiptum við Dani sem hann hafði mikil og náin og  erfið. Það er óneitanlegt að þáverandi Danakonungur, Kristján X, var mjög erfiður maður - ég sá núna á síðastliðnu ári í fyrsta skipti mynd af honum brosandi. Það hefur verið eina myndin sem fundist hefur af honum þar sem sá maður var ekki eins og  hraðfrystur. Sigurður  sat við sinn keip, gaf aldrei eftir. Ferðir hans til Kaupmannhafnar eins og Íslandsráðherrar þurftu að fara til að fá fólk til að skrifa undir lög hljóta að hafa verið mestu þrautaferðir, móttökur stífar, leiðinlegar og erfiðar. Ýmsa menn átti hann þar að, sem hann komst vel af með, en mér skilst að innan hirðarinnar hafi verið slæmt skyggni og menn  engan veginn samvinnuþýðir. Mér var sagt, og  það var Erna sem sagði mér, og ég veit ekki hvaðan hún hafði þetta - að hann hafi einu sinni í Kaupmannahöfn sent heim skeyti sem var 2000 orð. Eins og menn muna þá  kom símasamband fyrst við Seyðisfjörð og þá var hægt að senda þangað skeyti - og þetta mun  vera algjört met - skeyti hafa verið stuttorð og snubbótt í þá daga. En Sigurður hefur gert sér vel grein fyrir þvermóðsku Dana og þeim hvimleiðu niðurstöðum sem hann hefur fengið í ýmsum málum   og menn hér heima hafa ekki verið í neinum vafa um hvernig hlutirnar hafa gengið fyrir sig.

Sigurður Eggerz í Lundunum

Þessi mynd var mér i barnsminni og Solveig móðursystir mín mundi ekki eftir henni - en ég fékk  að fara niður í kjallara hjá henni einhvern tíma og leita hana uppi og þá mundi hún vel eftir þessu þegar ég fann eintakið.

Hann er þarna i Englandi eins og þið sjáið á leigubílnum og þið sjáið að legghlífarnir - spats - sem hann er með standa undan buxnaskálmunum og harðan hatt eins og enskir bankamenn og fyrirmenn gengu með. Og  hann er að koma frá því að fá lán. Við reiknuðum með að þetta væri 1922 og það væri annaðhvort  “gula lánið” svokallað eða “Wagg lánið” og að Sir Henry Wagg, sem þá var bankastjóri, hafi veitt lánið sem Sigurður var að fá. Solveig mundi eftir því að þessi mynd kom held ég í Times í London og hún mundi eftir því að það hafi staðið undir henni “The Smiling Minister”. Enda sjáum við maðurinn var brosleitur og það var hann oft og tíðum.

Hann var bjartsýnismaður og Sigurður hafði ákaflega skemmtilegt og lifandi bros og var ekkert feiminn við að sýna tennurnar þegar vel lá á honum.

En þetta lýsir manninum vel og ég efast  ekki um að hann hafi vakið ákaflega mikla athygli Englendinga. Hann var í klæðaburði alltaf eins og þið sjáið þarna, alltaf mjög smekklegur, stílhreinn og virðulegur og hann kom líka virðulega fram og ekki  sköðuðu gráu hárin það, þetta silfraða fax. Hann  hefur  ábyggilega unnið traust manna flótlega og  alls ekki átt skilið þær móttökur, sem hann fékk hjá vissum mönnum í Danmörku, en verið vel tekið alls staðar annars staðar.

Um forsetakosningar:

Á þessum tíma hefðu margir talið að maður sem var að nálgast sjötugt væri of gamall. þetta voru taldir  mjög gamlir menn sem komnir voru hátt á áttræðisaldur, viðhorfið hefur breyst svo geysilega, áður dóu menn á miðjan aldri úr lungnabólgu áður en súlfalifin komu á stríðsárunum. Það var svo með Sigurð að hann var einstaklega heilsuhraustur, mikill útivistarmaður, gekk alltaf hratt og greiðilega og gekk mikið - ég man aldrei eftir honum í bíl.

Margir áberandi persónleikar vildu Sigurð í forsetaembættið,  ég minnist þess merka manns, vinar míns  Eggerts Stefánssonar, söngvara, sem bar hróður Íslendinga um Ítalíu og víða um heim, var mikill heimsborgari. Hann var einn af þessum mönnum, sem vildi Sigurð þjóðhöfðingja. Rektor Magnificus Alexander Jóhannesson vissi ég að hefði verið stuðningsmaður Sigurðar - og fjölmargir aðrir.

Páll: Sigurður var sjálfur bæði listamaður (skrifaði skáldsögur og leikrit og orti sálma). Hann var líka góður  vinur margra listamanna, eins og til dæmis Kjarvals.

Hilmar: Já hvort hann var. Kjarval fór ekki í jarðarför Sigurðar. Hann treysti sér ekki. En hann kom heim með stóra mynd og sagði: þetta eru blómin mín - hann fór austur á Þingvöll og málaði. Hann var svo fíngerður maður og tilfinningamikill að hann hefur reiknað með að hann myndi brotna niður í jarðarförinni - svo hann valdi þessa leið.

Páll: En þetta segir  eitthvað um persónuleika Sigurðar, því Kjarval var nú ekki þekktur fyrir að vera endilega vinur “fína fólksins”.

Hilmar: Nei, Kjarval var í lokin (líkt og Sigurður Eggerz) sæmdur  stórkrossi fálkaorðunnar, æðsta heiðursmerki sem Íslendingar geta veitt. Þeir bjuggust nú ekki við honum, en hann mætti nú samt í ráðherrabústaðnum til að taka við þessu, en afhenti um leið þjóðminnjaverði og bað hann um að góðfúslega geyma þetta fyrir sig. En þetta sýnir einmitt það sem þú varst að segja, að hann tók ekki of hátíðlega það sem stjórnmálamenn voru að gera á sínum tíma - en hann hélt upp á Sigurð, hann var alveg í sérflokki hjá honum.

Páll: Og þetta er gott dæmi um það, að Kjarval hafi talið Sigurð vera mjög einlægan mann.

Hilmar: Já, ákaflega... Þórarinn Kristjánsson hafnarstjóri var stórmerkur maður, ljúfmenni mikið og öllum harmdauði þegar hann féll frá 19. Júní 1945, aðeins 56 ára að aldri. Sigurður mágur hans fór þá á hafnarskrifstofuna og beiddist leyfis til að sitja við skrifborð hins látna við að semja sín minningarorð til birtingar. Þar hafði skáldið og stemningsmaðurinn útsýni  yfir höfnina, sem Þórarinn hafði byggt frá 1917 og stjórnað með glæsibrag allri mannvirkjagerð og fyrirmyndarsrekstri allt til dauðadags. Þetta sýnir hugarfar Sigurðar, höfundarhæfileika og hugarþel á viðkvæmum tímamótum og þar með djúphyggð hans, vitsmuni og viðkvæmni skálds og listamanns lifsins. “Skáldið í stjórnmálamanninum má aldrei deyja” sagði Sigurður Eggerz á sínum tíma.

Páll: Nú átti Sigurður bróður sem hét Guðmundur og sem var líka sýslumaður og þingmaður [1873 - 1957 GuðmundurEggerz] ...

Hilmar: Já, indælis maður, ég hitti Guðmund nokkrum sinnum og hann var ákaflega þægilegur og vænn maður, en bar ótakmarkaða virðingu fyrir Sigurði bróður sínum og stóð  frekar í skugganum á honum.

Ég fékk það erfiða hlutskipti að þurfa að hringja norður og tilkynna Guðmundi lát bróður hans  og hann hágrét lengi í símann - væntumþykja hans á Sigurði var einstaklega einlæg og ég tel hann vera með betri mönnum, sem ég hefi kynnst.

-->framhald